Viðbrögð verðandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, við fréttum um aukin dæmi um hatursglæpi í kjölfar kjörs hans eru að segja viðkomandi að hætta árásunum.

Í viðtali við fréttaskýringarþáttinn 60 mínútur á sjónvarpsstöðinni CBS í Bandaríkjunum sagði hann „Ég mun segja þetta, og ég mun segja það í myndavélarnar: Hættið þessu.“

Spurningin kom upp í kjölfar þess að fréttamaðurinn, Lesley Stahl sýndi honum skýrslu yfir árásir og ofsóknir sem stofnun sem fylgist með hatursglæpum, The Southern Poverty Law Center, gaf út og sýndi að síðan kosningasigur hans var ljós hafa meira en 200 slík atvik átt sér stað.

Sagði stofnunin að um væri að ræða aukin tíðni slíkra árása, sérstaklega gegn svörtum, innflytjendum og múslimum. Þegar spurður út í þetta svaraði Trump „Mér þykir miður að heyra þetta,“ þó hann sagði þetta ekki mikinn fjölda.

„Ekki gera þetta,“ sagði forsetinn tilvonandi. „Þetta er hræðilegt því ég ætla að sameina þetta land.“