20% tollur gæti verið lagður á innflutta evrópska bíla til Bandaríkjanna ef Evrópusambandið lækkar ekki tolla og afnemur viðskiptahindranir gagnvart Bandaríkjunum ef marka má Twitter síðu Donald Trump, forseta Bandaríkjanna . Þá hvatti Trump evrópska bílaframleiðendur einnig til að framleiða bíla sína í Bandaríkjunum.

Í kjölfar tístsins tóku hlutabréfaverð evrópskra bílaframleiðenda á borð við BMW, Daimler, Porsche og Volkswagen dýfu samkvæmt frétt BBC .

Áhugi Trump á tollum á evrópskar bifreiðar hefur fengið blendnar viðtökur úr bandarísku atvinnulífi og stjórnmálastéttinni. Peterson hugveitan áætlar að 25% tollar á innflutning bifreiða til Bandaríkjanna muni kosta 195 þúsund störf í Bandaríkjunum að því er BBC greinir frá.

Wilbur Ross, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna sagði bandarískri þingnefnd að engin ákvörðun um tolla hafi verið tekin.

Innflutningur bifreiða og varahluta frá Evrópu til Bandaríkjanna nam 50 milljörðum dollara í fyrra, en þar af kom um helmingurinn frá Þýskalandi.