*

laugardagur, 22. febrúar 2020
Erlent 11. júlí 2018 18:34

Trump kemur Kínverjum í uppnám

Bandaríkjaforseti hyggst hefna fyrir svartolla Kínverja með tollum sem nema meira en öllum innflutningi Kína frá Bandaríkjunum.

Ritstjórn
Donald Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna í nóvember 2016 og tók hann við embættinu í byrjun síðasta árs.
epa

Bandarísk stjórnvöld hafa talið upp innflutningsvörur fyrir andvirði 200 milljarða Bandaríkjadala, eða 21,5 þúsund milljörðum króna, frá Kína sem þau hyggjast leggja á nýja tolla á.

Ákvörðunin kemur nokkrum dögum eftir að gagnkvæmir tollar ríkjanna tóku gildi í byrjun mánaðarins. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá hafði Trump hótað því að setja enn meiri tolla á Kína ef þeir myndu svara fyrstu tollum hans líkt og þeir höfðu ákveðið að gera sama dag.

Listinn telur yfir 6 þúsund vörunöfn, þar með talið ýmsar matvörur, málma og neysluvörur eins og handtöskur. Mun almenningur í Bandaríkjunum hafa tækifæri til að gera athugasemdir við listann áður en hann tekur gildi. Kínversk stjórnvöld segja ákvörðunina algerlega óásættanlega og að hún skaði ekki bara Kína og heimsbyggðina alla heldur Bandaríkin sjálf.

Staðan er hins vegar sú að Kína geta ekki svarað í sömu mynt í þetta sinn því þau einfaldlega flytja ekki inn nægilega mikið af bandarískum vörum. Á síðasta ári nam heildarinnflutningur Kínverja á bandarískum vörum 130 milljörðum Bandaríkjadala. Sem er einmitt eitt af umkvörtunarefnum Donald Trump Bandaríkjaforseta um Kína og þeirra að hans mati ósanngjörnu viðskiptahátta.

Nýju tollarnir eru áætlaðir lægri en þeir sem settir voru í fyrstu umferð tollastríðs landanna, eða 10%. Hlutabréfamarkaðir í Asíu féllu í dag í kjölfar tilkynningar um tollana, Hang Seng vísitalan í Hong Kong lækkaði um 1,5% og Shanghai Composite vísitalan lækkaði um 1,8%. Nikkei 225 vísitalan í Japan lækkaði um 1,2%.

Stikkorð: Bandaríkin Kína Donald Trump tollar Bandaríkin Kína