*

laugardagur, 14. desember 2019
Erlent 19. júlí 2019 19:05

Trump sendir Seðlabankanum tóninn

Forseti Bandaríkjanna segir hugsunarvillu hrjá stjórnendur bandaríska Seðlabankans.

Ritstjórn
Trump hefur gagnrýnt Jay Powell, Seðlabankastjóra Bandaríkjanna, fyrir að hafa hækkað vexti of snemma og of mikið.
Aðsend mynd

Donald Trump hefur verið iðinn við skeytasendingar að undanförnu og nú síðast fengu stjórnendur Seðlabanka Bandaríkjanna skömm í hattinn. Skeytinu var beint að John Williams, sem fer fyrir Seðlabanka New York fylkis, en á dögunum flutti hann umdeilda ræðu sem vakti vonir greinenda um að 50 punkta lækkun stýrivaxta væri í burðarliðnum. Seðlabankinn birti í gær yfirlýsingu þar sem ummæli Williams voru útskýrð. Hún hafi verið fræðileg og að William hafi hvorki boðað né mælt með vaxtalækkun. 

Trump sagði í tísti á Twitter að hugsunarvillu hrjá stjórnendur Seðlabankans. Hann kynni vel við Williams og að fyrsta yfirlýsing hans hafi verið betri en síðari túlkunin í yfirlýsingu bankans. Þá hafi hann haft 100% rétt fyrir sér um að vextir hafi verið hækkaðir of snemma og of skart. Frá þessu er greint á vef Financial Times þar sem Trump er sagður hafa þrýst á vaxtalækkun frá því að hann tók við embætti. 

Trump kallaði sömuleiðis eftir því að bankinn stöðvi tafarlaust magnbundna íhlutun sína og fullyrti að hagkerfið væri betur sett ef bankinn hefði ekki gripið til óhefðbundinna skuldabréfakaupa til að bregðast við lausafjárþurðinni í kjölfar fjármálahrunsins 2008.