Bandamaður Trump, Chris Christie, sagði að ef hann ynni forsetakosningarnar myndi hann reyna að hreinsa út úr bandaríska stjórnkerfinu opinbera starfsmenn sem komið hefðu inn í forsetatíð Obama og gæti hann beðið þingið um að setja á lög sem gerði auðveldara fyrir um að reka opinbera starfsmenn.

Listar gerðir fyrir hreinsanir

Christie sem er ríkisstjóri í New Jersey og leiðir lið Trumps sem stjórnar mögulegum valdaskiptum, sagði að þeir væru að lista upp þá opinberu starfsmenn sem þyrfti að reka ef Trump myndi sigra Hillary Clinton í forsetakosningunum.

„Eins og þið þekkið frá öðrum sviðum, þá hefur Trump gaman að því að reka fólk,“ sagði Christie á fundi með lokuðum hópi stuðningsmanna á landsþingi Repúblikana sem haldin er þessa dagana í Cleveland í Bandaríkjunum.

Þar var Christie að vísa í aðalhlutverk Trumps í þáttunum The Apprentice, þar sem hann varð þekktur fyrir orð sín „Þú ert rekinn.“

Stór hluti pólítískt skipaðir

Í Bandaríkjunum hefur forsetinn rétt á að skipa töluverðan fjölda opinberra starfsmanna pólítískt og er gert ráð fyrir að þeir missi vinnuna þegar nýr forseti taki við, nema þeir séu skipaðir áfram í starfið.

Hins vegar eru einnig margir opinberir starfsmenn með hefðbundið atvinnuöryggi opinberra starfsmanna og óttast Repúblikanar að Obama muni reyna að flytja marga af sínum pólítískt skipuðu embættismönnum yfir í þann flokk áður en hann hættir.