Viðskiptablaðið hefur tekið saman nokkrar af stærstu erlendu fréttum ársins.

Trump til valda þvert á allar á spár

Ein stærsta frétt ársins var án efa sigur Donald Trump í bandarísku forsetakosningunum. Trump þótti ekki líklegur til þess að hljóta tilnefningu Repúblikanaflokksins en óx jafnt og þétt ásmegin og þvert á allar spár varð hann forsetaefni flokksins. Á þessu ári atti hann kappi við Hillary Clinton, sem af nánast öllum sérfræðingum var spáð sigri í kosningunum 8. nóvember. Hinn sjötugi auðjöfur kom sá og sigraði. Þrátt fyrir að Clinton hafi hlotið tveimur milljónum fleiri atkvæði tryggði Trump sér sigur með því ná meirihluta í 30 ríkjum. Hann hlaut 306 kjörmenn en Clinton 232 en í bandarísku kosningunum þarf sigurvegarinn að ná 270 kjörmönnum. Trump tekur formlega við af Barack Obama þann 20. janúar.

Fidel Castro segir af sér
Fidel Castro segir af sér
© AFP (AFP)

Castro dó í nóvember

Fidel Castro, fyrrverandi einræðisherra Kúbu, lést þann 25. nóvember. Castro komst til valda í byltingunni árið 1959 þegar Fulgencio Batista og herforingjastjórn hans var hrakin frá völdum. Castro var einn umdeildasti og þekktasti þjóðarleiðtogi síðustu aldar. Castro, sem var bandamaður Sovétríkjanna sálugu, steig til hliðar árið 2006 vegna veikinda, sem hann glímdi við allt til dauðadags. Eftirlét hann bróður sínum, Raul Castro, að stjórna landinu, sem hann hefur gert síðan. Fyrr á þessu ári fór Barack Obama í opinbera heimsókn til Kúbu en það var fyrsta heimsókn bandarísks forseta til landsins í 90 ár. Castro var níræður þegar hann lést.