Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, tilkynnti í dag að hann hefði valið Mike Pence, ríkisstjóra í Indiana, sem varaforsetaefni. Ákvörðun Trumps kemur lítið á óvart, þar sem Pence nýtur mikils stuðnings meðal félagslegra íhaldsmanna. Trump frestaði tilkynningunni um einn dag vegna hryðjuverkanna í Nice.

Pence hefur setið í tólf ár í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Ríkisstjórinn mun að öllum líkindum geta styrkt stöðu milljarðamæringsins í fylkjum á borð við Illinois, Michigan, Ohio og Wisconsin. Líklegt er að Pence muni sæta gagnrýni frá Demókrötum í komandi kosningum. Hann er þekktur fyrir íhaldssamar og kristilegar skoðanir.