*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Innlent 8. apríl 2021 18:54

Trúnaði aflétt á undirbúningsgögnum

Nefndarmenn velferðarnefndar hafa fengið undirbúningsgögn við setningu sóttvarnahússreglugerðar í sínar hendur.

Jóhann Óli Eiðsson
Svandís Svavarsdóttir, ráðherra heilbrigðismála, ásamt Ölmu Möller landlækni.
Eggert Jóhannesson

Trúnaður nefndarmanna velferðarnefndar þingsins verður ekki skilyrði fyrir því að þeir fái að sjá undirbúningsgögn vegna setningar reglugerðar um skyldudvöl í sóttvarnarhúsi við komuna til landsins. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins. Fjölmiðlar fá gögnin aftur á móti ekki afhent.

Eftir að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem komist var að því að umrædda reglugerð hefði skort lagastoð, hefur skapast mikil umræða um efnið. Velferðarnefnd var kölluð saman til funda og kom Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, auk fulltrúa ráðuneytisins fyrir nefndina. Kölluðu nefndarmenn eftir því að fá afrit af undirbúningsgögnum sem lágu til grundvallar setningu reglugerðarinnar en því var að stærstum hluta hafnað.

Sama kvöld og úrskurðurinn var kveðinn upp hafði Viðskiptablaðið óskað eftir sömu gögnum. Blaðinu voru afhent tvö minnisblöð sóttvarnalæknis en minnisblöð heilbrigðisráðuneytisins til ríkisstjórnarinnar voru undanþegin á grunni 1. tl. 6. gr. upplýsingalaganna. Sú grein kveður á um að gögn sérstaklega tekin saman fyrir ráðherra- eða ríkisstjórnarfundi skuli undanþegin upplýsingarétti. Ráðuneytið kaus enn fremur ekki að nýta rétt til að veita aukinn aðgang að gögnunum.

Þegar kom að því að sýna skjölin velferðarnefnd var farið fram á það að nefndarmenn héldu trúnað um innihald þeirra. Hafnaði þá hluti þeirra því að skoða þau enda mat þeirra að eðlilegt væri að forsendurnar að baki ákvörðuninni, sem fól í sér skerðingu á frelsi borgara, yrðu gerðar opinberar. Heimildir blaðsins herma að trúnaði hafi nú verið aflétt á þann veg að nefndarmönnum verði frjáls að tjá túlkun sína á innihaldi skjalanna án þess þó að segja beinum orðum hvað þar stendur. Afstaða gagnvart fjölmiðlum virðist enn vera sú sama.