Tryggingarsjóður innstæðueigenda er hvorki undir beinni né óbeinni stjórn íslenskra stjórnvalda, að mati EFTA dómstólsins. Með öðrum orðum er hann ekki hluti af íslenska ríkinu. Er þetta meðal þess sem kemur fram í dómi EFTA dómstólsins í Icesave-málinu, sem féll fyrr í morgun.

Þar segir að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og framkvæmdastjórn ESB hafi báðar haldið því fram að Tryggingarsjóðurinn, sem samkvæmt íslenskum lögum er einkastofnun, sé með einhverjum hætti hluti af íslenska ríkinu.

Dómurinn segir hins vegar að hvorki ESA né framkvæmdastjórninni hafi tekist að sýna fram á að svo sé.