Samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta hefur stofnast til greiðsluskyldu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta gagnvart viðskiptavinum Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka hf. sem ekki hafa fengið greiddar innstæður sínar, í samræmi við ákvæði laganna.

Þetta kemur fram á vef Fjármálaeftirlitsins (FME) en þann 9. mars s.l. tók FME ákvörðun um að taka yfir vald hluthafafundar Straums og skipa skilanefnd fyrir bankann. Skilanefnd bankans tók ákvörðun um að loka bankanum þann dag.

„Það er álit Fjármálaeftirlitsins að sama dag hafi Straumur-Burðarás Fjárfestingarbanki hf. ekki verið fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna tiltekinna reikninga, þeirra viðskiptavina sem þess kröfðust,“ segir á vef FME og Tryggingasjóður því ábyrgur fyrir innistæðum.

Sjá nánar á vef FME.