Tryggja ehf. hefur fest kaup á öllu hlutafé Consello af stofnendum ráðgjafafyrirtækisins, þeim Guðmundi Hafsteinssyni og Lárusi Hrafni Lárussyni. Consello hefur nú þegar flutt aðsetur sitt í höfuðstöðvar Tryggja að Stórhöfða 23 í Reykjavík. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Áætlað er að velta félaganna tveggja verði um 800 milljónir króna á næsta ári og EBITDA-hagnaður um 100 milljónir. Afkoma félagsins verði rétt um 40% betri en ef félögin myndu áfram starfa með aðskilið reiknings- og mannahald.

Fram kemur að engar meiriháttar breytingar verða á starfsemi Consello í framhaldi af viðskiptunum og mun fyrirtækið áfram einbeita sér að óháðri ráðgjöf og miðlun á tryggingum fyrirtækja og stofnanna.

Lárus verður forstöðumaður Consello ráðgjafar og mun stýra verkefnum þess. Guðmundur mun áfram sinna flugtengdum vátryggingum og aðrir starfsmenn fyrirtækjasviða félaganna munu sinna störfum sínum í nafni Consello. Tryggja mun eftirleiðis einbeita sér að sölu sérhæfðra trygginga, endurtrygginga, fjártækni, vöruþróun, bakvinnslu og tjónauppgjörum af enn meiri krafti. Engar breytingar verða á yfirstjórn Tryggja við kaupin.

Baldvin Samúelsson, stjórnarformaður Tryggja og Consello:

„Með kaupum á Consello verður alger aðgreining milli sölu annarsvegar og ráðgjafar hinsvegar. Við teljum það til mikilla hagsbóta fyrir viðskiptavini félaganna. Kaupin muni skila verulegri hagræðingu fyrir félögin á ýmsum sviðum og er áætlað að velta félaganna verði um 800 milljónir á næsta ári og að EBITA-hagnaður verði um 100 milljónir, rétt um 40% betri afkoma en ef félögin hefðu verið með aðskilið reiknings- og mannahald.

Við fengum reynslumikinn mann til liðs við félagið, Svavar Hjaltested, til að sjá um fjármálastjórn samstæðunnar og byrjaði hann í september. Svavar mun leiða það mikilvæga verkefni að sjá um ferla, fjárreiður og kostnaðaraðhald. Tryggja og Consello veita ráðgjöf með og miðla rúmlega tveimur milljörðum af iðgjöldum á ári og því er mikilvægt að vanda vel til verka enda með frábært starfsfólk með hátt menntunarstig og mikla þekkingu í heimi vátrygginga.“