Þrátt fyrir að vanda íslensku bankanna megi rekja til ákvarðana sem teknar voru árin 2004 og 2005 að mati Tryggva Pálssonar, þegar bankakerfið stækkaði mikið með kaupum á bönkum erlendis, þá voru aðstæður á erlendum mörkuðum árin 2007 og 2008 með ólíkindum að sögn Tryggva.

Vandamálin mögnuðust eftir fall Lehman Brothers 15. september 2008. Innan Seðlabanka Íslands höfðu löngu áður verið teiknaðar upp sviðsmyndir fjármálaáfalls og grannt var fylgst með þróun mála á alþjóðamörkuðum. Það verkefni var m.a. á hendi Tryggva. Í einu minnisblaðinu sem lagt var fyrir bankastjórn Seðlabankans í janúar 2008 var dregin upp það sem Tryggvi kallaði „hryllingsmynd“.

Í því sagði m.a.: „Að loknu rekstraruppgjöri bankanna í þessari viku hlýtur athyglin að beinast að horfum í rekstri þeirra á þessu ári. Sú mynd verður ekki glæsileg og ef fjármögnunarvandinn leysist ekki á næstu mánuðum blasir við hryllingsmynd.“

Frá haustmánuðum 2007 var það ljóst innan Seðlabankans að mikil vandamál væru framundan fyrir hið ofvaxna íslenska bankakerfi. Skýrsla breska viðlagasérfræðingsins Andrew Gracie, sem Tryggvi hafði milligöngu um að fá til vinnu fyrir Seðlabankann, dró það skýrt fram að bankakerfið gæti farið á hliðina í október 2008 ef fjármögnunarvandræðin myndu ekki leysast. Skýrslan var kynnt í febrúar 2008 fyrir bankastjórn Seðlabankans sem síðan kynnti hana fyrir forsætisráðherra, eins og rakið er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Vandamálin mögnuðust erlendis eftir því sem að leið á árið 2008. Tryggvi segir að það hafi skapast ástand á mörkuðum, einkum eftir fall Lehman Brothers, sem kalla megi nær „óhugsandi“ aðstæður fyrir alla þá sem þekkja til fjármálamarkaða.

„Stærstu fjármálamarkaðir heims féllu nær alveg saman á örskotsstundu. Bandarískur skuldabréfamarkaður, sem var gríðarlegur að umfangi, millibankamarkaður í Bandaríkjunum og markaður með dollara. Allir þessir markaðir féllu saman eftir að mikil skelfing greip um sig í kjölfar falls Lehman Brothers. Evrópa í heild sinni átti í erfiðleikum með að ná í dollara til að endurfjármagna dollaraskuldbindingar, sem er auðvitað ótrúlegt. Vegna þess hve þetta gerðist snöggt þá fór hvert land fyrir sig að reyna að verja sitt fjármálarkerfi. Mikil þörf var hins vegar fyrir alþjóðlegt samstarf til þess að greiða úr þessum miklu vandamálum.“

Sp. blm.: Var samstarf á milli seðlabanka lítið á þessum tíma, þegar fjármálamarkaðir voru að falla saman?

Seðlabankar áttu samstarf. Við vorum t.d. með viðbúnaðarsamkomulag við norræna seðlabanka og við erum núna þátttakendur í viðbúnaðarsamkomulagi ESB og sérstöku samkomulagi fyrir Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. En þegar á hólminn var komið þá reyndist samkomulag við aðra seðlabanka ekki nægilega traustur grunnur fyrir samvinnu.

Í þessu samhengi má taka dæmi af bankalandinu Sviss. Það stóð berskjaldað í þessum hremmingum með mjög stórt bankakerfi. En vegna þess hvað bankar þar í landi voru stórir og mikilvægir þá gat seðlabankinn í Sviss gert samkomulag um gagnkvæm gjaldmiðlaskipti og fleira, sem gerði það að verkum að landið stóð þetta af sér. Íslensku bankarnir voru hins vegar ekki álitnir kerfislega mikilvægir á mörkuðum, sem gerði þeim endanlega ómögulegt að lifa af.

Vegna þess hvernig markaðir þróuðust á árinu 2008 þá tel ég, eftir á að hyggja, að það hafi verið ómögulegt fyrir bankana að lifa af. Það er hægt að nefna annað í þessu samhengi, sem sýnir að hvert land hugsaði eðlilega mest um sig sjálft. Þegar íslensku bankarnir féllu brugðust norræn stjórnvöld við með mismunandi hætti. Norski tryggingasjóðurinn þvingaði fram bráðasölu á BNbank Glitnis en sænski seðlabankinn veitti Kaupþingi bráðabirgðalán sem var hærra heldur en það sem íslenski seðlabankinn veitti Kaupþingi.

Sænski seðlabankinn fékk síðar allt sitt til baka með því að selja eignir sem voru teknar að veði. Danir ábyrgðust erlendar skuldbindingar sinna banka. Hver þjóð hugsaði um sína hagsmuni og það skapaði vandamál, vegna þess að fjármálamarkaðir eru í eðli sínu alþjóðamarkaðir. Aðeins mikið og skilvirkt samstarf hefði getað komið í veg fyrir þau vandamál sem sköpuðust og þjóðir heims munu verða lengi að vinna úr.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .