Euclid Tsakalotos tók við starfi fjármálaráðherra Grikklands af Yanis Varoufakis í gær við hátíðlega athöfn. Varoufakis var einungis við störf í fimm mánuði en tókst að fá alla kollega sína í Evrópu upp á móti sér. Þótti hann afar erfiður í viðræðum.

Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi um helgina skrifaði Varoufakis á bloggsíðu sína að ákveðnir ráðamenn í Evrópu vildu helst ekki hafa hann með á fundum sínum og að forsætisráðherrann Alexis Tsipras telid það vera góða hugmynd. Hann ákvað því að segja af sér og sagðist vera stoltur af því að vera hataður af lánadrottnunum.

Staðgengillinn

Maðurinn sem kemur inn í stað Tsipras er Euclid Tsakalotos, sem áður var efnahagsráðherra. Hann tók við sem aðalsamningamaður Grikklands við lánadrottna af Varoufakis í apríl. Tvímenningarnir eru ólíkir en eiga eitthvað sameiginlegt.

Líkt og Varoufakis er Tsakalotos hagfræðingur að mennt. Hann lauk grunnnámi í stjórnmála- og hagfræði ásamt heimspeki og lauk síðan doktorsgráðu í hagfræði frá Oxford. Hann fæddist í Rotterdam í Hollandi en bjó lengi á Englandi.

Tsakalotos hefur verið eins konar „skugga-ráðherra“ fjármála frá því að Syriza flokkurinn náðu völdum. Ólíkt Varoufakis, þá kemur hann ekki nýr í flokkinn. Hann hefur verið hluti af Syriza í nánast áratug og þingmaður á gríska þinginu frá árinu 2012.

Hann byrjaði sem fræðimaður áður en hann fór yfir í stjórnmál og hefur kennt í bæði Kent háskóla og Háskólanum í Aþenu. Honum er lýst sem „heilanum á bakvið efnahagsstefnu Syriza“ og hefur hann gefið út sex bækur.

Hann skilgreinir sjálfan sig sem marxista en telur þó að Grikkland ætti enn að vera hluti af evrusvæðinu.