Fjárfestingarfélagið TSM Capital hefur eignast stóran hlut í bresku verslunarkeðjunni Matthew Williamson Holdings, Ltd. Baugur Group eignaðist hlut í Matthew Williamson á síðasta ári og mun eiga áfram í félaginu ásamt nýrri og eldri fjárfestum. TSM Capital eignast 22% hlut í félaginu en Baugur á 26%. Stofnendur Matthew Williamson Holdings Ltd., þeir Matthew Williamson og Joseph Velosa, munu áfram eiga meirihluta í félaginu. Með kaupunum kemur nýtt fjármagn inn í reksturinn sem ætlað er að fjárfesta í frekari vexti vörumerkisins.

Eigendur TSM Capital eru Áslaug Magnúsdóttir og þeir Marvin Traub og Mortimer Singer. Þau hafa öll unnið mikið að ráðgjafarstörfum í verslunarrekstri en að sögn Áslaugar er þetta fyrsta fjárfestingarverkefni þeirra síðan TSM Capital var stofnað fyrr í sumar.

Ætlunin er að færa út sölusvæði félagsins til fleiri landa, bæta innri uppbyggingu félagsins, þróa nýjar vörur og koma upp nýjum verslunum á lykilstöðum. Fyrsta skrefið í þessa átt verður að opna söluskrifstofu í New York. Að sögn Áslaugar er hér um að ræða mjög sterkt merki sem hún taldi að ætti mikla möguleika á dýrari enda markaðarins með föt, fylgihluti, skartgripi og skó.