Gera má ráð fyrir að tugir milljarða króna tapist í kjölfar þess að erlendar eignir Milestone eru seldar núna. Undanfarið hefur verið unnið að því að endurskipuleggja reksturinn en ljóst er að þær tilraunir voru andvana fæddar, meðal annars vegna vantrausts á íslenskum fjárfestum erlendis.

Eigið fé Milestone- samstæðunnar nam 54,5 milljörðum í lok júní og eiginfjárhlutfall hennar var um 10,6%. Stærsta eign Milestone er sænska fjármálafyrirtækið Moderna en félagið er um 92% af heildareignum Milestone.

Þessi niðurstaða er enn eitt áfallið fyrir kröfuhafa Glitnis en Glitnir var með um 90% af kröfum á Milestone. Ljóst er að Milestone mun ekki standast skilyrði um eigið fé eftir þetta og þarf að ná samkomulagi við lánadrottna hyggist félagið halda áfram að stýra innlendum eignum eins og sagt er í fréttatilkynningu í morgun.