Gjald­þrota­skiptum Eignar­halds­fé­lagsins RS ehf., áður RedSquare Invest ehf., er lokið og fundust engar eignir í búinu. Lýstar kröfur voru 22,5 milljarðar króna.

Fé­lagið var í jafnri eigu Jóns og Sturlu Snorra­sona en fé­lagið skilaði síðast árs­reikningi fyrir árið 2014 þar sem tekið var fram að mála­ferlum fé­lagsins við Glitni hf. og Icebank hf. vegna ó­upp­gerðra við­skipta­samninga myndi hafa af­gerandi á­hrif á fram­tíð fé­lagsins.

Árið 2015 var Eignar­halds­fé­lagið dæmt í Hæsta­rétti til að greiða Glitni 5,5 milljarða króna skuld en bankinn höfðaði mál gegn fé­laginu til greiðslu á tveimur af­leiðu­samningum, annars vegar um fram­virk skulda­bréfa­kaup og hins vegar skipta­samnings.

Deilt var um gildi fyrri samningsins fyrir dómi en fyrir­svars­menn RS höfðu undir­ritað al­menna skil­mála markaðs­við­skipta Glitnis og áttu frum­kvæðið að við­skiptunum.

Endan­legur samningur var aldrei undirritaður en af sam­skiptum aðila um fram­lengingu samningsins og þar sem RS væri fag­fjár­festir taldi Hæsti­réttur samningi vera komið á.

Áttu hátt í 400 milljón hluti í Glitni

Sam­kvæmt efna­hags­reikningi árið 2014 voru eignir fé­lagsins metnar á 2,2 milljarða og bók­fært eigið fé í árs­lok var nei­kvætt um 781 milljón. Eignir fé­lagsins undir lok líf­tíma þess var að mestu bundið í skulda­bréf en á árum áður átti fé­lagið tölu­vert af hluta­bréfa­eignum bæði hér­lendis og er­lendis.

FL Group keypti til að mynda 80 milljón hluti í Glitni af fé­laginu árið 2006 á genginu 16,6 krónur sem sam­svaraði 1,3 milljarða krónum. Jón Snorra­son var á þeim tíma stjórnar­maður í Glitni en eftir við­skiptin átti RedSquare Invest um 397 milljón hluti í Glitni.

Með úr­skurði héraðs­dóms Reykja­víkur í októ­ber 2016 var fé­lagið tekið til gjald­þrota­skipta og lauk þeim í mars á þessu ári.