Doktorsnemarnir Eydís K. Sveinbjarnardóttir, sviðsstjóri hjúkrunar á geðsviði Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH) og Jóhanna Bernharðsdóttir, lektor við HÍ og forstöðumaður fræðasviðs í geðhjúkrun við LSH, hlutu í á dögunum styrk úr rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur.

Hvor um sig hlaut 375.000 krónur í styrk. Rannsóknir Eydísar og Jóhönnu í doktorsnáminu eru báðar í geðhjúkrun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HÍ.

Þar kemur fram að rannsóknarverkefni Eydísar K. Sveinbjarnardóttur er á sviði fjölskylduhjúkrunar. Markmiðið með því er að þróa og meta stuðning við fjölskyldur sem hjúkrunarfræðingar veita á bráðageðdeildum á geðsviði LSH.

Verkefni Jóhönnu Bernharðsdóttur er að kanna sálræna líðan kvenstúdenta við HÍ. Annars vegar með því að kanna depurðar- og kvíðaeinkenni og bera saman við aðra samfélagshópa og hins vegar að þróa og forprófa forvarnarnámskeið til að efla geðheilbrigði kvenstúdenta og koma í veg fyrir kvíða- og þunglyndiseinkenni.

Ingibjörg hafði frumkvæði að stofnun sjóðsins árið 2007 og hefur gefið í hann af og til. Í sumar færði hún sjóðnum samtals kr. 1.750.000, þar af 750.000 krónur í tilefni af 85 ára afmæli sínu og fór þess á leit að þeirri upphæð yrði úthlutað sem fyrst.

Markmið sjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur er að efla rannsóknir í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði. Sjóðurinn mun veita styrki til rannsóknaverkefna hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í doktorsnámi, sem falla að markmiði sjóðsins. Stofnfé sjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur var samtals 5.000.000 króna og samanstendur m.a. af gjafafé frá Ingibjörgu R. Magnúsdóttur, framlagi Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði, framlagi frá Glitni, framlagi frá Ljósmæðrafélagi Íslands, framlagi frá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, gjafafé frá Magnúsi Friðriki Guðrúnarsyni og af gjafafé í tilefni doktorsprófs Sigrúnar Gunnarsdóttur hjúkrunarfræðings.

Ingibjörg R. Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi. Hún var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.