Undanfarið hafa íslenskir fjölmiðlar fjallað nokkuð um dreifingu á framleiðslu General Motors á Íslandi. Af því tilefni hafa Ingvar Helgason ehf. og Bílabúð Benna ehf. sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
Á Íslandi eru tveir löggildir umboðsaðilar General Motors.

Í yfirlýsingunni kemur fram að fyrirtækið Ingvar Helgason hefur einkaleyfi til sölu á og þjónustu við Opel, Saab og Cadillac auk ákveðinna tegunda Chevrolet-bíla sem framleiddir eru í Norður-Ameríku. Þar er m.a. um að ræða Chevrolet TrailBlazer, Tahoe, Suburban, Silverado og Colorado.

Fyrirtækið Bílabúð Benna hefur einkaleyfi til sölu á og þjónustu við fjölbreytt úrval nýrra bíla frá Chevrolet. Um þessar mundir er um að ræða tegundirnar Chevrolet Matiz, Kalos, Nubira, Lacetti, Tacuma og Evanda.

"Fyrirtækin Bílabúð Benna og Ingvar Helgason hyggjast vinna náið saman að því að beina viðskiptavinum sínum til réttra sölu- og þjónustuaðila og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að komast hjá því að rugla viðskiptavini General Motors í ríminu," segir í yfirlýsingunni.