Íslensk almannatengsl hafa ráðið til sín tvo nýja starfsmenn. Þeir eru Guðbjörg Eggertsdóttir fjármálastjóri og Árni Hallgrímsson, ráðgjafi í almannatengslum.

Guðbjörg Eggertsdóttir, fjármálastjóri Íslenskra almannatengsla, er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og er með M.Sc. í gæðastjórnun frá Verslunarháskólanum í Árósum. Hún starfaði lengi við endurskoðun og fjármálastjórnun en hefur undanfarin ár verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi á sviði fræðslu og fjármálaaðstoðar.

Árni Hallgrímsson, ráðgjafi í almannatengslum, vann hjá Morgunblaðinu í aldarfjórðung, lengst af við prófarkalestur en síðan sem blaðamaður, hvort tveggja við blaðið og fréttavef þess, mbl.is. Hann er með próf í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands. Undanfarin þrjú ár hefur Árni starfað við almannatengsl.

Íslensk almannatengsl ehf. er ráðgjafarfyrirtæki sem býður upp á þjónustu á öllum sviðum markaðs- og upplýsingamála. Starfsmenn ÍA búa að góðri hagnýtri reynslu úr fjölmiðla- og viðskiptaheiminum auk menntunar í viðskipta- og fjölmiðlagreinum.