Tveir ríkisbankanna, Nýi Kaupþing og Íslandsbanki hafa ákveðið að lækka vexti sína í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabankans frá því í morgun, en sem kunnugt er lækkaði bankinn stýrivexti úr 15,5% í 13%.

Nýi Kaupþing segist í tilkynningu fagna vaxtalækkun Seðlabankans og segir þetta mikilvægt skref í að lækka vaxtabyrði hjá heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Í kjölfarið hefur bankinn ákveðið að lækka innlánsvexti um 2,5% til 4% og útlánsvexti um 3% til 4% frá og með 11. maí.

„Með þessari vaxtalækkun vill bankinn koma til móts við kröfur um auknar vaxtalækkanir í þjóðfélaginu,“ segir í tilkynningunni.

Þá hefur Íslandsbanki jafnframt ákveðið að lækka útláns- og innlánsvexti bankans frá og með 11. maí n.k. Þetta hefur í för með sér að vextir á óverðtryggðum inn- og útlánum lækka um 1 – 6,4 prósentustig og vextir á verðtryggðum inn- og útlánum lækka einnig um 0,95 – 1 prósentustig.

Í tilkynningu Íslandsbanka kemur fram að á undanförnum mánuðum hefur bankinn lækkað kjörvexti óverðtryggðra skuldabréfa um 11,35 prósentustig, sem er 6,35 prósentustigum umfram lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands á sama tíma.