Átta félög munu mynda Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar um næstu mánaðamót í stað sex áður. Inn í vísitöluna koma því tvö ný félög. Þau skráðu fyrirtæki sem mynda Úrvalsvísitöluna verða Hagar, HB Grandi, Icelandair Group, Marel, N1, Sjóvá, Tryggingamiðstöðin og VÍS.

Breytingin á Úrvalsvísitölunni er í samræmi við endurskoðun hennar á sex mánaða fresti.

Í tilkynningu Kauphallarinnar segir að OMX Iceland 8 vísitalan er samsett af þeim átta félögum sem hafa mestan seljanleika á NASDAQ OMX Iceland.  Vægi félaga í OMX Iceland 8 vísitölunni ræðst af flotleiðréttu markaðsvirði, sem þýðir að einungis það hlutafé sem ætla má að myndi grunn að virkum viðskiptum í Kauphöllinni er hluti af vísitölunni.