Miðasala á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur nær tvöfaldast á síðustu fimm árum. Þetta sýnir samanburður síðasta árs við það herrans ár 2007. Margar skýringar liggja sjálfsagt að baki þessari fjölgun en á þessu tímabili hefur orðið efnahagshrun, Sinfóníuhljómsveitin hefur farið í kynningarátak og ekki má gleyma nýju heimili hljómsveitarinnar í tónleikahúsinu Hörpu.

Það voru tæplega 29.000 einstaklingar sem sóttu tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar á starfsárinu 2007-2008. Á síðasta starfsári var fjöldi gesta orðinn tæplega 57.000.

Veltuaukning hjá Sinfóníunni
Veltuaukning hjá Sinfóníunni

"Við erum að fá fjölbreyttari hóp áheyrenda núna og fleira ungt fólk,“ segir Margrét Ragnarsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hún efast ekki um hlut Hörpu í aukinni aðsókn enda meiri upplifun að heimsækja Hörpu og betri hljómburður þar en í Háskólabíói. Auk þess sé Harpa miðsvæðis og geri Sinfóníuna sýnilegri á margan hátt.

Aðspurð um þróun miðaverðs segir Margrét möguleikann á að bjóða fleiri verðflokka í Hörpu skipta miklu. „Við getum bæði boðið lægri verð hér í Hörpu og hærri,“ segir Margrét. „Ódýrasti miðinn er á 2.200 krónur. Það er næstum bara eins og að fara í bíó!“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.