Kínverska fyrirtækið Huishan er í vanda statt. Félagið segist hafa týnt nánast öllu fé sínu, eða því sem samsvarar tæplega 35 milljörðum íslenskra króna. Fyrir utan þann mikla hausverk, þá er fjármálastjóri fyrirtækisins horfinn. Félagið rekur um 80 mjólkurbú í Kína. Gengi félagsins tók rækilega dýfu nýverið, en í mars þá lækkaði gengi hlutabréfa þeirra um 91 prósentustig á einum degi. Um þetta furðulega mál fjallar CNN Money.

Í tilkynningu frá félaginu kom fram að félagið ætti að eiga 2,9 milljarða júan, á reikningum sínum í reiðufé. En samkvæmt viðskiptabankanum sem félagið á viðskipti við, á Huishan einungis 467 milljónir júan á reikningum sínum. Forsvarsmenn Huisan reyna nú í óða önn að komast til botns í þessu furðulega máli. Fyrirtækið hefur átt mjög erfitt með að undirbúa ársreikninga og annað slíkt vegna brottfars starfsmanna fjármáladeildarinnar.

Til að mynda hefur Ge Kun, einn af framkvæmdastjórum fyrirtækisins sem sá um fjármál félagsins horfið. Hún lét sig hverfa síðastliðinn mars, en í bréfi til félagsins sagði hún að vinnan hafi haft neikvæð áhrif á heilsu hennar. Vandræði fyrirtækisins hófust fyrir ríflega þremur mánuðum, en þá gaf fyrirtækið Muddy Waters út langa skýrslu sem úthúðaði stjórnarhætti í kínverska fyrirtækinu; Að stjórnendur hafi falsað tölur til að sýna fram á hagnað og fleira.