Einn stærsti banki Evrópu, UBS, tilkynnti um bestu ársfjórðungsafkomu í sögu bankans í gær. Sérfræðingar bentu þó á að þótt afkoma einkabankastarfsemi bankans væri aðdáunarverð, væri fjárfestingabankastarfsemin ekki í sama gæðaflokki hvað það varðar og hjá samkeppnisaðilum eins og Deutsche Bank og Credit Suisse.

Hagnaður samstæðunnar hækkaði um 33% og nam 3,5 milljörðum svissneskra franka, 205 milljörðum íslenskra króna, á fyrsta fjórðungi ársins 2006. Þó voru inni í þeirri tölu tekjur upp á 290 milljónir franka vegna sölu á rafmagnsfyrirtækinu Motor Columbus. Hagnaður af reglulegri starfsemi hækkaði um 29% og nam 3,19 milljörðum svissneskra franka.

UBS er á meðal þeirra banka í veröldinni sem skilað hafa mestum hagnaði undanfarin ár. Áætlanir fyrirtækisins fyrir þetta ár einkennast af bjartsýni. "Við teljum horfurnar fyrir UBS mjög góðar, jafnvel þótt aðstæður breytist," sagði Clive Standish, fjármálastjóri hjá bankanum.

Heildarupphæð í eignastýringu hækkaði um 33,6 milljarða svissneskra franka, eða tæplega tvær billjónir íslenskra króna -- meira en sem nemur heildareignum í eignastýringu hjá mörgum svissneskum einkabönkum -- á fjórðungnum. Vöxtur var jafn í starfsemi víðs vegar um heiminn.

Standish greindi einnig frá því að vaxandi starfsemi bankans í nærliggjandi Evrópulöndum hefði í fyrsta skipti skilað hagnaði, en vildi ekki gefa upp hve miklum. Útibúanetið, sem hefur vaxið mikið á síðustu þremur árum til að bæta upp minnkandi innflæði frá ríkum útlendingum inn á leyndarreikninga í Sviss, aflaði 6,5 milljarða svissneskra franka í innlán á fjórðungnum. Einkabankastarfsemi bankans í Bandaríkjunum, sem venjulega hefur skilað minni hagnaði en önnur starfsemi bankans, aflaði 8,9 milljörðum franka í innlán.