Samkvæmt úttekt úr gangnabanka Algorithmics - Algo FIRST, hefur verið tilkynnt um fjársvikamál í um 400 vogunarsjóðum á einu ári, eða meira en eitt svikamál á dag.

Fyrirtækið sem stofnað var 1989 sérhæfir sig í ganasöfnun og víðtæku áhættumati fyrir fyrirtæki um allan heim til að auðvelda þeim að taka ákvarðanir í sínum fjárfestingum. Eru um 100 helstu bankar heims sagðir nýta sér þjónustu gagnakerfis Algorithmics.

Penny Cagan, framkvæmdastjóri aðgerðarhóps Algorithmics, segir að umfang og tíðni fjársvika hjá vogunarsjóðum kalli á nákvæmari skoðun og úttektir á sjóðunum og að menn spyrji réttra spurninga. Nefnir hún sem dæmi að þeir sem hafi veitt upplýsingar um t.d. Madoff sjóðinn séu nú sjálfir orðnir að skotmarki fjárfesta sem reyni að sækja sinn rétt.

„Það þýðir að nákvæmni í upplýsingagjöf er jafn mikilvæg og annað, ekki bara fyrir fjárfesta, heldur einnig eftirlitsaðila, miðlara og stjórnir sjóðanna.”

Aðspurð um hvort það séu fyrst og fremst nýleg atvik sem valdið hafi þessari fjölgun tilkynninga um svik hjá vogunarsjóðum sagði Penny Cagan:

„Þvert á móti. Mörg þessara svikamála sem nú hafa verið uppgötvuð hafa átt sér stað yfir mörg ár. Sum jafnvel um áratuga skeið. Þau hafa aðeins verið uppgötvuð núna í kjölfar þeirrar ringulreiðar sem ríkt hefur á fjármálamarkaði og í tengslum við fjölgun björgunaraðgerða. Svikararnir hafa ekki getað falið misgjörðir sínar þegar fjárfestar hafa reynt að fá sína peninga til baka.”