Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu 1,4 milljörðum króna í nóvember en þar af voru 1,3 milljarðar króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í nóvember 2011 einnig 1,3 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Þar kemur fram að meðalútlán almennra lána voru 10,6 milljónir króna.

Heildarfjárhæð almennra lána það sem af er ári er samtals 12 milljarðar króna en var 20,5 milljarðar króna á sama tímabili 2011. Alls hefur Íbúðalánasjóður veitt 1.223 almenn íbúðalán frá áramótum (2011/12) í samanburði við 2.043 lán á sama tímabili í fyrra.

Heildarvelta íbúðabréfa nam 61,5 milljörðum króna í nóvember samanborið við 30,8 milljarða í október 2012. Greiðslur Íbúðalánasjóðs vegna íbúðabréfa og annarra skuldbindinga námu 660 milljónum króna í nóvember. Uppgreiðslur námu um 1,6 milljörðum króna.

Fleiri í vanskilum á höfuðborgarsvæðinu

Þá kemur fram að í lok nóvember 2012 nam fjárhæð vanskila einstaklinga 4,91 milljarði króna og er undirliggjandi lánavirði 90,3 milljarðar króna eða um 13,7% útlána sjóðsins til einstaklinga. Þetta samsvarar 0,3% lækkun frá fyrra mánuði og er undirliggjandi lánafjárhæð í vanskilum í lok nóvember 0,5% undir meðalstöðu ársins.

Heimili í vanskilum eru 4.795 og þar af eru 616 heimili með frystingu á lánum sínum. Alls voru því 9,4% þeirra heimila sem eru með fasteignalán sín hjá Íbúðalánasjóði með lánin í vanskilum í lok nóvember 2012. Það er sama hlutfall og í lok árs 2011.

Í lok nóvember nam fjárhæð vanskila útlána til lögaðila alls 3,3 milljörðum króna og nam undirliggjandi lánavirði 30,5 milljörðum króna. Tengjast því vanskil um 21,1% lánafjárhæðar sjóðsins til lögaðila, sem samsvarar 0,3% hækkun frá fyrri mánuði og er 1,3% undir meðalstöðu ársins. Lækkun vanskila lögaðila það sem af er ári skýrist að stórum hluta af því að undirliggjandi veðandlag útláns hafi verið yfirtekið af Íbúðalánasjóði.

Í lok nóvember náðu vanskil einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu til 2.641 heimila og vanskil einstaklinga utan höfuðborgarsvæðisins náðu til 2.154 heimila. Sé litið til undirliggjandi lánsfjárhæðar eru 12,1% lána einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu í vanskilum og 16,3% lána einstaklinga utan höfuðborgarsvæðisins. Vanskil eða frystingar ná samtals til 15,1% lánasafnsins. Vanskil teljast hér lán í vanskilum umfram 90 daga vanskil og lán sem eru í frystingu.