Yfirgnæfandi meirihluti Dana er tilbúinn til þess að falla frá öllum launahækkunum til þess að koma landinu í gegnum efnahagslega erfiðleika. Þetta kemur fram í nýrri Gallup-könnun sem gerð var fyrir danska dagblaðið Berlingske Tidende.

Nær 80% þeirra sem spurðir voru sögðust er tilbúnir til þess að fallast á launafrystingu.

„Þetta gefur til kynna raunsæishugsun og meðvitund um erfiðleika í efnahagsmálum og það er gott merki. Okkur í ríkisstjórninni finnst einnig að það sé skynsamlegt að halda aftur af launahækkunum eins og ástandið er nú,“ segir Bjarne Corydon, fjármálaráðherra Danmerkur.

Harald Børsting, forystumaður dönsku verkalýðsfélaganna, segir að verkalýðsfélögin séu með það á tæru að ekki verði miklar launahækkanir í nánustu framtíð. „Ef við látum launin ekki hækka mjög mikið þýðir það að fyrirtækin verða samkeppnishæfari og það munu skapast fleiri störf,“ segir Harald.