Áttatíu prósent allra rafrænna gagna hafa verið búin til á síðustu tveimur árum. Þar af eru 80-90% þessara gagna ómótuð eða hálfmótuð, eins og umsagnir fólks á netinu, tíst á Twitter, bloggfærslur, myndir á Facebook og tölvupóstsamskipti. Þetta sagði Christopher Perrien, hjá IBM, á Smarter Business ráðstefnu Nýherja og IBM í dag.

IBM býst við að gagnamagn og umsýsla gagna muni halda áfram að vaxa hratt á komandi árum. Fyrirtækið hefur því þróað ofurtölvu sem gerir fyrirtækjum mögulegt að vinna úr og halda utan um sívaxandi gagnamagn, ekki síst ómótuð gögn.

Nýja tölvan heitir Watson og byggir á hugrænni tölvun (Cognitive computing). Hún getur lært og átt samskipti við fólk á miklum hraða. Watson sameinar mannlega vitsmuni og býr yfir getu til þess að vinna úr og geyma áður óþekkt magn gagna.