Hin nýja en samt 40 ára gamla Breiðafjarðaferja Baldur hefur gjörbreytt ferðamynstri og flutningum um Breiðafjörð. Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæfara í Stykkishólmi sem rekur skipið, segir sumarið búið að vera gott en flutningarnir yfir vetrarmánuðina hafi líka aukist verulega undanfarin ár. „Það fara um 90% af öllum þungaflutningum með trukkum og öðru með skipinu yfir vetrartímann."

Þar er m.a. um að ræða ferðir flutningabíla sem aka á milli Reykjavíkur, Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Bíldudals. Með því að fara með skipinu losna flutningabílarnir við að aka erfiða leið yfir þrjá fjallvegi í Austur-Barðastrandarsýslu, þ.e. Klettaháls, Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Auk þess gerir hvíldartímaregla flutningabílstjóra þeim erfitt fyrir að aka þessa leið í slæmri færð á vetrum. Með því að nota skipið geta þeir tekið hvíldartíma út á siglingunni yfir fjörðinn.

„Það hefur líka orðið gjörbreyting á nýtingu íbúa hér á ferjunnar eftir að nýja skipið kom. Einnig viðhorfi til þessara ferjuflutninga, en áður töldu sumir að ferjusiglingarnar spilltu fyrir uppbyggingu vegarins vestur. Sú umræða er eiginlega alveg horfin og menn líta bara á þetta sem val og góðan kost," segir Pétur.