Alls var tæplega 5.100 manns sagt upp á árinu 2008 með hópuppsögnum. Stærstur hluti uppsagnanna barst í lok október eða tæp 60%, 11% uppsagnanna bárust í nóvembermánuði og færri í öðrum mánuðum.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar en í desembermánuði bárust Vinnumálastofnun aðeins 4 tilkynningar um hópuppsagnir þar sem sagt var upp samtals 94 einstaklingum. Ein tilkynning var úr mannvirkjagerð, ein úr verslunargeiranum, og tvær úr upplýsinga- og sérfræðistarfsemi.

Heildarfjöldi starfsmanna þeirra fyrirtækja sem tilkynntu uppsagnir er milli 110 og 120 manns, og því eru þessi fyrirtæki sem um ræðir að segja upp stærstum hluta starfsmanna sinna.

Allflestar uppsagnirnar koma til framkvæmda í lok janúar, en nokkrar næstu mánuði á eftir allt fram til loka maí. Helstu ástæður uppsagna eru rekstrarerfiðleikar, verkefnaskortur og endurskipulagning.

Þúsund manns missa vinnuna um áramót og annað eins í lok janúar

Eins og fyrr segir var um 5.100 manns sagt upp í hópuppsögnum á árinu 2008.

Á vef Vinnumálastofnunar kemur fram að yfir 2.200 hópuppsagnanna hafa þegar komið til framkvæmda, þar af yfir 1.000 í lok nóvember.

Ríflega 1.000 eru að missa vinnuna í kjölfar hópuppsagna núna um áramótin, flestir úr mannvirkjagerð, allstór hópur úr verslun, iðnaði og fjármála-/tryggingastarfsemi, einnig talsverður fjöldi úr flutningastarfsemi, upplýsinga-/útgáfustarfsemi og ýmiskonar þjónustustarfsemi.

Í lok janúar missa yfir 1.100 manns vinnuna í kjölfar hópuppsagna, einkum úr þremur atvinnugreinum, þ.e. mannvirkjagerð, verslun og fjármála-/tryggingastarfsemi, en einnig úr iðnaði, flutningastarfsemi, upplýsinga-/útgáfustarfsemi og sérfræðilegri starfsemi.

Þá liggja fyrir upplýsingar um að yfir 400 manns missi vinnuna í lok febrúar, einkum úr mannvirkjagerð og fjármálastarfsemi, um 200 í lok mars, einkum úr fjármálastarfsemi og nokkrir síðar.

Sjá nánar á vef Vinnumálastofnunar.