Sjóvá
Sjóvá
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Sitjandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum á Íslandi 1. febrúar 2009. Fjórum mánuðum áður hafði íslenskt efnahagskerfi, og í raun samfélag, farið á hliðina þegar þrír stærstu bankar landsins voru yfirteknir af Fjármálaeftirlitinu (FME), neyðarlög sett í landinu og íslenska krónan hrundi.

Við hinni nýju ríkisstjórn, og sérstaklega fjármálaráðherranum Steingrími J. Sigfússyni, blöstu mýmörg endurreisnarverkefni. Þau stærstu snéru með beinum hætti að ríkisfjármálum og því grundvallarhlutverki stjórnvalds að finna jafnvægi milli tekna og útgjalda. Önnur voru óvenjulegri og snéru að því að eindurreisa ýmis einkafyrirtæki. Dæmi um hið síðar nefnda er Sjóvá.

Sjóvá: Tapa fjórum milljörðum

Tryggingarisinn Sjóvá lenti í höndunum á skilanefnd Glitnis fljótlega eftir hrun. Ljóst var að sú fjárfestingastarfsemi sem fyrrum eigendur fyrirtækisins, Milestone, höfðu látið það stunda hafði leikið það grátt og gríðarlegar fjárhæðir vantaði til að Sjóvá gæti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum sínum og haldið áfram rekstri. Í júlí 2009 ákvað fjármálaráðherra, í samráði við ríkisstjórn Íslands, að taka þátt í endurskipulagningu Sjóvár.

Kröfur lagðar til

Viðskiptablaðið greindi frá því í desember 2010 að Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir, aðstoðarmenn þeirra tveggja, Gunnar Haraldsson (þáverandi stjórnarformaður FME) og tveir starfsmenn eftirlitsins hafi fundaði um fjárframlag ríkisins til Sjóvár í fjármálaráðuneytinu laugardaginn 27. júní 2009. Ellefu dögum síðar var gengið frá samningi um að ríkið legði Sjóvá til 11,6 milljarða króna vaxtalaust til að tryggingarrekstur félagsins gæti haldið áfram.

Ríkisframlagið var með þeim hætti að ríkissjóður lagði til kröfur, meðal annars á Aska Capital, sem hann hafði eignast þegar ríkið keypti svokallaðar veðlánakröfur af Seðlabanka Íslands eftir bankahrun. Kröfurnar voru síðan færðar inn í Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) í lok árs 2009 og við það eignaðist það um 73% hlut í Sjóvá.

Sjóvá selt

Söluferli á Sjóvá hófst síðan í janúar 2010. Ári síðar var síðan tilkynnt um að fagfjárfestasjóðurinn SF1 hefði keypt 52,4% hlut í Sjóvá að því gefnu að það tækist að fjármagna kaupin. Félagið er í umsjón Stefnis hf. Gengið var frá kaupunum í síðustu viku og kom þá fram að nærri 5 milljarðar króna hefðu fengist fyrir hlutinn. Haft var eftir Seðlabankastjóra á RÚV að vonast væri til að hægt yrði að selja um 20% hlut í viðbót fyrir um 2 milljarða. Því munu um 4,3 milljarðar króna tapast á aðkomu hins opinbera að Sjóvá.

FME vildi bjarga Sjóvá

Steingrímur segir FME hafa lagt mikla áherslu á að tryggingastarfsemi Sjóvár yrði bjargaði og að það hafi verið talið nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni almennings. Hann segist ekki sjá eftir aðgerðinni. „Ef viðbótarhluturinn (innsk. blaðam. 20%) verður seldur á svipuðu verði þá verður þetta tap. En það þótti nauðsynlegt að láta ekki eitt af þremur stóru tryggingafélögunum fara í þrot á þessum tíma með tilheyrandi erfiðleikum.“

Nánar er fjallað um umdeildar lífgjafir ríkisstjórnarinnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.