Verið er að undirbúa nýja vinnulöggjöf í Kína sem er ætlað að bæta réttindi verkamanna og gefa verkalýðsfélögum meiri áhrif. Þrátt fyrir að ekki sé enn vitað hvernig löggjöfin muni endanlega líta út hefur málið þegar vakið upp ágreining á meðal bandarískra verkalýðsfélaga og stórfyrirtækja, en mörg verkalýðsfélög í Bandaríkjunum eru óánægð með þá þróun sem hefur orðið á síðustu árum að bandarískum störfum sé úthýst til Kína og annarra láglaunaþjóða í Asíu.

Í síðustu viku sagði United Steelworkers (USW), eitt stærsta verkalýðsfélagið í Bandaríkjunum, að það væri hlynnt fyrirhuguðum breytingum á vinnulöggjöfinni í Kína og ásakaði um leið hóp fyrirtækja í Bandaríkjunum um að reyna hindra það að Kínverjar réðust í þessar umbætur. Forseti USW, Leo Gerard, gagnrýndi Viðskiptaráð Bandaríkjanna fyrir að heyja "siðlausa herferð í þeim tilgangi að grafa undan réttindum kínverskra verkamanna."

En löggjöfin er ekki síður umdeild í Kína. Kommúnistaflokkurinn hefur heitið því að draga úr ójöfnuði sem hefur aukist hratt í Kína samhliða efnahagsuppgangi í landinu og er hinni fyrirhuguðu löggjöf ætlað að stemma stigu við þá þróun. Nýjustu tölur benda til þess að borgarbúar þéni rúmlega þrefalt meira heldur en samlandar þeirra í sveitunum. Þessi gríðarmikli ójöfnuður er þyrnir í augum kínverskra yfirvalda sem óttast að áframhaldandi þróun muni grafa undan markmiðum stjórnvalda um að stefna beri að "samfélagi samhljóma alþýðu" (e. harmonious society).

Hins vegar hafa kínverskir ráðamenn það ofarlega í huga að nýja vinnulöggjöfin má ekki verða til þess að draga úr áhuga erlendra fjárfesta á að flytja starfsemi sína til Kína, en nú þegar eru mörg erlend fyrirtæki farin að flytja framleiðslu sína í meira mæli til Víetnam og Bangladesh vegna aukins launakostnaður í Kína. Sumir gagnrýnendur hafa bent á að með nýju lögunum verði mjög dregið úr sveigjanleika fyrirtækja til að segja upp starfsmönnum.

Þrátt fyrir að flest vestræn fyrirtæki hafi temprað upphaflega gagnrýni sína á fyrirhugaða löggjöf þá hafa engu að síður mörg þeirra áhyggjur. Í skoðanakönnun sem lögfræðifyrirtækið Baker & McKenzie og ráðgjafarfyrirtækið Hewitt Associates gerði fyrr á þessu ári á meðal 436 fyrirtækja, kom fram að meira en helmingur þeirra taldi að nýju lögin myndu hafa neikvæð eða mjög neikvæð áhrif fyrir starfsemi þeirra í Kína.