Björgólfur Thor Björgólfsson gerði í júlí samkomulag við alla lánardrottna sína og félaga sinna, bæði hér á landi og erlendis. Uppgjörið var upp á um 1.200 milljarða króna. Greint var frá samkomulaginu í fjölmiðlum 22. júlí.

Viku síðar var Björgólfur Thor í viðtali við Viðskiptablaðið þar sem hann fjallaði ítarlega um samkomulag sitt og ýmis mál er snéru að honum. Bankarnir sem aðild áttu að samkomulaginu voru m.a. Glitnir, Landsbankinn, Kaupþing og Straumur. Auk þeirra voru nokkrir erlendir bankar, þar á meðal Deutsche Bank, Barclays, Standard og Fortis.

Við gerð samkomulagsins við kröfuhafa naut Björgólfur aðstoðar tveggja erlendra fyrirtækja. Þau voru lögmannsstofan Linklaters og ráðgjafarfyrirtækið AlixPartners en það sérhæfir sig í fjárhagslegri endurskipulagningu.

„Að baki skuldbindingum Björgólfs Thors voru miklar eignir en ekki bara loft, eins og samkomulag við lánardrottna ber með sér,“ sagði Ragnhildur Sverrisdóttir, talskona Björgólfs Thors.