Alls stóðu um 1.300 íbúðarfasteignir tómar á höfuðborgarsvæðinu þegar Samtök iðnaðarins framkvæmdu síðustu talningu sína um miðjan mars sl. Í þeirri tölu eru fasteignir sem eru fokheldar og lengra komnar. Þegar litið er til húsnæðis sem er á byggingarstigi 7, þ.e. fullbúið, töldu stafsmenn samtakanna aðeins 22 fasteignir á höfuðborgarsvæðinu öllu og voru það allt íbúðir í fjölbýli. Ekki eitt einasta fullbúið einbýlishús stendur autt og hvað þá raðhús eða parhús. Taka ber fram að í talningu SI er eingöngu tekið tillit til nýbygginga en eldri fasteignir eru þar ekki taldar með.

Nýbyggingar - Fasteignir
Nýbyggingar - Fasteignir
© BIG (VB MYND/BIG)
Að sögn Jóns Bjarna Gunnarssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, er brýn þörf á því að hleypa nýju lífi í byggingarframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. „Við teljum eðlilegt að byggðar séu 1.500-1.800 íbúðir á ári. Ljóst er að undanfarin misseri hefur þessari tölu alls ekki verið náð. Mikið er talað um að fólk sé að flytja úr landi en ef skoðaðar eru mannfjöldatölur þá er Íslendingum að fjölga. Einnig er mikilvægt að horfa til þess að mjög stórir árgangar eru að koma inn á markaðinn,“ segir Jón Bjarni en eins og fram kom í fjölmiðlum í síðustu viku fjölgaði íbúum landsins um 728 á fyrri helmingi ársins. Þá bjuggu tæplega 47 þúsund einstaklingar á aldrinum 16-25 ára á landinu um síðustu áramót samkvæmt tölum Hagstofu Íslands og á aldrinum 16-30 voru 70.500 einstaklingar.

Jón Bjarni segir SI hafa lagt á það áherslu að byggja þurfi meira af smærri og ódýrari íbúðum til þess að koma nýbyggingamarkaðnum af stað enda sé mikill skortur á tveggja og þriggja herbergja íbúðum. Með ódýrari íbúðum segist hann m.a. vera að vísa til húsnæðis þar sem bílastæði séu ekki í dýrum kjöllurum heldur uppi á plani. „Annað lykilatriði er að verð á lóðum lækki. Sveitarfélögin tóku þátt í góðærinu með því að hækka verulega lóðargjöld sem í sjálfu sér var ekki óeðlilegt á meðan eftirspurnin var næg en á sama hátt verða þau að lækka verð þegar samdráttur verður í eftirspurn,“ segir Jón og nefnir að Árborg lækkaði verð á lóðum um 25% fyrir skömmu en lækkunin gildir frá áramótum. „Þeirra sýn er að eins og staðan er nú þá liggja mikil verðmæti í tilbúnum lóðum sem engu skila en með því að koma hreyfingu á lóðirnar verða til störf við byggingarnar, afleidd störf í verslun og þjónustu og síðan koma í húsin íbúar sem skila sveitarfélaginu fasteignagjöldum og útsvari. Ég tel að fleiri sveitarfélög ættu að gera það sama.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.