Umhverfisráðuneytið hefur vakið athygli Landsnets og Skipulagsstofnunar á röngum fullyrðingum um fyrirhugaða orkuþörf álvers Norðuráls í Helguvík sem fram koma í matsáætlunum Landsnets um Suðvesturlínu og ákvörðun Skipulagsstofnunar um sameiginlegt umhverfismat. Í gögnum frá Landsneti kemur fram að Norðurál hafi hafið framkvæmdir við allt að 360.000 tonna álver í Helguvík og sé aflþörf þess 435 MW.

Í tilkynningu Umhverfisstofnunar segir að þessi ranga fullyrðing sé síðan endurtekin í ákvörðun Skipulagsstofnunar um að Suðvesturlína eigi ekki að fara í sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum með tengdum framkvæmdum. Hið rétta er að aflþörf fyrirhugaðs 360.000 tonna álvers í Helguvík er 625 MW. Hér skeikar því 190 MW.

Umhverfisráðuneytið vekur athygli fjölmiðla á þessu vegna þess að í nokkrum tilfellum hefur umfjöllun fjölmiðla um virkjanamál byggt á hinum röngu upplýsingum Landsnets.