Engar opinberar viðræður eru í gangi á milli sparisjóða um mögulega sameiningu þrátt fyrir að töluvert hafi verið rætt um nauðsyn frekari samruna sjóðanna í ljósi erfiðra aðstæðna á fjármálamarkaði.

Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands sparisjóða, segir hins vegar þessa umræðu skjóta skökku við þar sem staða margra minni sparisjóða sé nú mjög góð í samanburði við stærri fjármálafyrirtæki.

„Undanfarið hefur þróunin ráðist af þrengingum og erfiðleikum, en það er ekki bara svartnætti í þessu heldur líka tækifæri og mikilvægt að menn sjái þær hliðar málsins líka. Umtalsverður hluti viðskiptavina sparisjóðanna eru þar vegna þess að þeir vilja eiga viðskipti við lítil fjármálafyrirtæki á borð við sparisjóðina."

„Nú þegar margir sparisjóðir hafa runnið inn í Kaupþing kunna minni sparisjóðir að eiga möguleika á að auka markaðshlutdeild sína í framhaldinu,“ segir Guðjón.