Ríkisábyrgð á skuldbindingum LSR gagnvart sjóðsfélögum hefur verið til umræðu lengi. „Það er gott að halda því til haga að ríkisábyrgðin er á B-deild, sem er lokuð deild og mun á endanum klárast. Það er ekki söfnunarsjóður í eðli sínu heldur gegnumstreymissjóður og allt öðruvísi en aðrir lífeyrissjóðir,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir formaður Bandalags háskólamanna og stjórnarmaður í LSR.

Hún segir umræðuna um þessi mál oft vera á villigötum. „Hjá A-deild LSR er það þannig að ríkið er skuldbundið til þess að mæta sjóðinum með framlagi ef það horfir illa við stöðunni. Ríkisábyrgð á A- og B-deildum er því ekki sú sama. Hún hefur aldrei komið til framkvæmda í A-deildinni,“ segir hún.

Spurð um réttmæti ríkisábyrgða segir Guðlaug BHM vera hart á því að umsamin réttindi séu umsamin réttindi. „Okkar útgangspunktur í nýju kerfi er sá að það yrði valkvætt fyrir þá sem tilheyra því gamla. Ef nýja kerfið felur í sér lakari lífeyrisréttindi þá þarf slíkt að endurspeglast í betri launakjörum í dag. Það fengist val.“

Ítarlegt viðtal er við Guðlaugu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .