Stefnt er að því að leggja fram í næstu viku tillögu ríkisstjórnarinnar um að Alþingi álykti að sótt skuli um aðild að Evrópusambandinu. Drög að ályktuninni hafa verið kynnt stjórnarþingmönnum og forystumönnum stjórnarandstöðunnar.

Heimildarmenn úr röðum Samfylkingarinnar eru bjartsýnir á að tillagan verði afgreidd á sumarþingi. Það sé reyndar forsendan fyrir stjórnarsamstarfinu.

Tillagan er samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins stutt og skorinorð. Í greinargerð eru skilgreind helstu samningsmarkmið svo sem að Íslendingar haldi yfirráðum yfir auðlindum sínum og að landbúnaðurinn verði varinn.

Össur Skarphéðsinsson utanríkisráðherra verður flutningsmaður umræddrar stjórnartillögu. Þótt ágreiningur sé innan VG um málsmeðferð liggur fyrir samþykki af hálfu flokksins að tillagan fari til umfjöllunar í þinginu.

Talið er að tillagan muni í lokaatkvæðagreiðslu fá atkvæði úr þingflokki VG en einnig mótatkvæði.

Tillagan var, sem fyrr sagði, kynnt formönnum stjórnarandstöðuflokkanna í gær. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er vilji til þess að þeir fái að koma með sínar athugasemdir áður en tillagan verður lögð fram á Alþingi. Þannig eigi að ná eins mikilli sátt um málið og kostur er.

Skiptar skoðanir eru innan Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hvernig leiða eigi málið til lykta en Borgarahreyfingin hefur lýst því yfir að hún geti fallist á tillöguna verði skilyrði hreyfingarinnar samþykkt.

Ekki munu vera talin vandkvæði á því samkvæmt heimildum úr röðum Samfylkingarinnar að skilyrðin verði samþykkt, en þau eru um gegnsæi, að samninganefndin verði skipuð á faglegum forsendum og að vægi atkvæða verði jafnt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .