Það getur tekið gjaldeyriseftirlit Seðlabankans marga mánuði að fara yfir umsóknir um undanþágur frá lögum um gjaldeyrishöft sem taldar eru fordæmisgefandi. Þetta kemur fram á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

Pétur Steinn Pétursson, starfsmaður gjaldeyriseftirlitsins, segir að fara þurfi vel yfir málin, sem séu misflókin, og m.a. gæta að því að undanþágan ógni ekki stöðugleika. Gjaldeyriseftirlitið samþykkti alls 577 undanþágur frá gjaldeyrishöftunum í fyrra.

Samkvæmt 13. grein e. í lögum um gjaldeyrishöft er meðal annars kveðið á um að óheimilt sé að fjárfesta í verðbréfum í erlendri mynt. Í Morgunblaðinu er tekið dæmi um Bátasmiðjuna Rafnar ehf. sem sótti um undanþágu frá lögunum 21. maí en Seðlabanki Íslands hefur ekki enn tekið ákörðun.

Bátasmiðjan Rafnar ehf. gæti þurft að bíða í nokkra mánuði til viðbótar áður en Seðlabanki Íslands tekur ákvörðun um það hvort félaginu verði veitt heimild til kaupa á gjaldeyri vegna fyrirhugaðra kaupa á norskri bátasmíðastöð.

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Rafnars ehf., að fyrirtækið hafi skilning á því að starfsfólk þurfi að fara eftir settum reglum en jafnframt að dæmið sýndi vel það viðskiptaumhverfi sem íslensk fyrirtæki starfa innan. Viðskiptatækifæri bíði ekki endilega eftir því að Seðlabanki Íslands taki ákvörðun um undanþágur sem slíkar.