Héraðsdómur Reykjavíkur telur að stjórnendur Haga hafi skaðað hagsmuni neytenda og samkeppni á matvörumarkaði til lengri tíma litið til dæmis með því að selja vörur undir innkaupsverði. Er vitnað til þess þegar fyrirtækið seldi vöru á 1 krónu eða gaf hana jafnvel.

Í niðurstöðu dómsins segir að stjórnendum Haga hefði mátt vera það kunnugt að sem markaðsráðandi fyrirtæki á skilgreinum markaði báru þeir ríkar skyldur. Stjórnendum Haga var því óheimilt að svara samkeppni með þeim hætti sem þeir gerðu, enda hafi undirverðlagning verið til þess fallin að fæla samkeppnisaðila Bónus frá því að efna til samkeppni við verslanir Haga.

Hagar skulu greiða 315 milljónir í sekt

„Dómurinn fellst á að aðgerðir stefnanda hafi skaðað hagsmuni neytenda og samkeppni á matvörumarkaði til lengri tíma litið og að stefnandi hafi mátt vita að aðgerðir hans færu gegn 11. gr. samkeppnislaga. Þá telur dómurinn ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins og áfrýjunarnefndar samkeppnismála rétta, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að vegna brota stefnanda á þessari lagagrein, beri að leggja stjórnsýslusekt á stefnanda og að sektin sé hæfilega ákveðin 315.000.000 króna.

Við úrlausn á því horfir dómurinn einkum til þess að brot stefnanda voru sérstaklega alvarleg og stóðu yfir í langan tíma auk þess sem tillit er tekið til fjárhagsstyrkleika stefnanda á þeim tíma sem brotið var framið. Sjónarmiðum stefnanda um að fella beri sektina niður eða lækka hana er þar með hafnað," segir í niðurstöðu Héraðsdóms.

Hagar þurfa því ekki eingöngu að greiða 315 milljónir króna heldur málskostnað íslenska ríkisins og Samkeppniseftirlitsins einnig, uppá samtals 1,75 milljónir króna.