Ung fólk er þegar orðið áhugasamt um að byrja að ferðast á ný, eða svo segir a.m.k. József Váradi, forstjóri Wizz Air. Kórónuveirufaraldurinn hefur lamað flugsamgöngur á alþjóðavísu en þrátt fyrir að ferðatakmarkanir séu í gildi víða hefur lággjaldaflugfélagið þegar hafið að fljúga nokkra leggi sína á ný. BBC greinir frá.

Til að mynda er áætlað að ein af vélum félagsins taki á loft frá Luton flugvellinum í London og er ferðamannastaðurinn vinsæli Tenerife áfangastaðurinn.

Í þeim flugum sem Wizz Air stendur fyrir í dag og á næstunni er farþegum gert að vera með andlitsgrímur, auk þess sem þeir hafa greiðan aðgang að handspritti. Þá eru sum sæti skilin viljandi eftir auð til að halda fjarlægð milli farþega, engin matarþjónusta fer fram, engin tímarit eru í sætisvösum og á hverri nóttu er farþegarými vélanna djúphreinsað.

Forstjórinn segir að það seljist í um 75% af þeim sætum sem í boði eru í hverri ferð, en þrátt fyrir það séu vélarnar yfirleitt aðeins hálffullar þar sem sumir farþegar láta svo ekki sjá sig í þá flugferð sem þeir hafa pantað sér. Hann segir að fólk sem ferðist á þessum veirutímum leggi oft á tíðum land undir fót til þess að heimsækja fjölskyldu sína, heimsækja sitt annað heimili eða hreinlega vegna þess að það vill losna úr fjötrum samkomubanna.

Wizz Air sé þó ekki að leita skýringa á hvers vegna fólk sé að stíga um borð í áætlunarflug lággjaldaflugfélagsins.