Í gær bárust heldur neikvæðar fréttir af bandarísku hagkerfi. Sér í lagi voru fregnir af fasteignamarkaði þar í landi verri en gert hafði verið ráð fyrir. Könnun á fjölda fasteignasamninga benti til 2,6% samdráttar í nóvember á milli mánaða, en spár höfðu gert ráð fyrir um 0,5% samdrætti. Þó kom á móti að tölur októbermánaðar voru endurskoðaðar til hækkunar.

Í Morgunkorni Glitnis segir að mikið sé horft til fasteignamarkaðarins í Bandaríkjunum þessa mánuðina, en lækkandi verð og minnkandi fjárfestingar eru þættir sem taldir eru geta leyst úr læðingi samdrátt í neysluútgjöldum heimilanna sem myndi leiða til samdráttar í hagkerfinu.

Aðrir hagvísar sem bárust í gær bentu til þess að horfur varðandi þróun bandaríska hagkerfisins væru ekki sérlega góðar, en hægt hefur á ársvexti smásölu ásamt því að væntingar neytenda eru frekar dökkar en þær versnuðu í janúar frá fyrra mánuði.

Fréttir berast nú af því að bandarísk stjórnvöld íhugi skattalækkun í því skyni að forða samdrætti þar í landi á komandi misserum. Slæm staða ríkisfjármála gæti þó reynst þeim áformum fjötur um fót. Halli á ríkisfjármálum á síðasta fjárhagsári, sem lauk í septemberlok, nam 163 milljörðum Bandaríkjadala, eða ríflega 10.000 milljörðum króna, og er búist við umtalsvert meiri halla á yfirstandandi fjárhagsári, segir í Morgunkorninu.

Hlutabréfamarkaðurinn lækkaði í gær

Hlutabréf lækkuðu á bandaríska markaðnum gær þrátt fyrir hækkun framan af degi. Á síðasta eina og hálfa tímanum var markaðurinn hins vegar seldur niður í lokagildi dagsins.

Nokkrir þættir snéru markaðnum, en þar ber helst að nefna fréttatilkynningu frá AT&T um að þeir væru að loka á fleiri viðskiptavini vegna vanefnda ásamt sögusagna um gjaldþrot Countrywide, en tilkynning frá fyrirtækinu tók fyrir það. Einnig var forstjórum Bear Stearns og Starbucks sagt upp störfum í gær og jafnvel er búist við að fleiri stjórnendur verði látnir fara.

Fjarskiptafyrirtæki lækkuðu um 4,8% og fjármálafyrirtæki lækkuðu um 3,7%, en vísitölur þessara greina lækkuðu mest allra, samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis.