Unity, félag Davíðs Helgasonar, er töluvert verðmætara en öll íslenska kauphöllin samanlögð. Miðað við vænt útboðsgengi Unity, sem skráð verður í kauphöll New York í dag, er félagið virði allt að 1.700 milljarða króna. Við lokun markaða í gær var samanlagt virði þeirra tuttugu félaga sem skráð eru í íslensku kauphöllinni 1.219 milljarðar króna, um 72% af virði Unity.

Sjá einnig: Virði Unity hækkar enn frekar

Eignarhlutur Davíðs er metinn á 65-69 milljarða króna. Hans hlutur er því verðmætari en 17 af þeim 20 félögum sem eru innan kauphallarinnar, aðeins markaðsvirði Marel, Arion banka og Brims er hærra. Hagar er það félag sem kemst næst virði hlutar Davíðs en markaðsvirði Haga, eftir lokun markaða í gær, var ríflega 59 milljarðar króna.

Marel er verðmætasta félagið innan íslensku kauphallarinnar. Virði félagsins nam 549 milljörðum króna eftir lokun markaða í gær og Unity er því rúmlega þrisvar sinnum verðmætara.

Næst verðmætasta félag kauphallarinnar er Arion banki. Virði bankans var um 133 milljarðar króna í gær. Markaðsvirði Össurar er um 427 milljarðar íslenskra króna en félagið er skráð í dönsku kauphöllinni.

Unity býr til hugbúnað sem mikill fjöldi tölvuleikja byggir á. Davíð á 10,4 milljónir hluta í Unity og mun eiga 4% hlut í félaginu að útboðinu loknu sem mun vera allt að 500 milljóna dollara virði, jafnvirði um 69 milljarða króna.