Vara verður við því að ofmeta eftirlit með fjármálamörkuðum að því leyti sem tilhneiging er til að gera í því erfiða ástandi sem ríkir á evrópskum mörkuðum, að mati Unnar Gunnarsdóttur, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, en ársfundur FME stendur nú yfir. Í ávarpi í ársskýrslu FME segir hún að í ríkara mæli sé horft til eftirlitsaðila til að skapa stöðugleika og traust á mörkuðum.

„Svo langt er jafnvel gengið að væntingar virðast um að eftirlitsaðilinn geti séð fyrir ólíklegustu atvik í fjármálakerfinu og fyrirbyggt. Vara verður við því að ofmeta eftirlit að þessu leyti,“ segir hún.

Unnur segir að eins og nafnið beri með sér felist fjármálaeftirlit að miklu leyti í mati á því eftir á hvernig til hafi tekist við viðskiptaákvarðanir og hvort þær séu í samræmi við lög og aðrar leikreglur.

„Ítreka verður að það er ávallt mest um vert að þeir sem eru við stjórnvölinn í fyrirtækjunum taki sjálfir ábyrgar ákvarðanir sem byggjast á viðeigandi mati á áhættu og réttum upplýsingum. Í fullkomnum heimi er eftirlitið óþarft. Í okkar ófullkomna heimi er það eins konar öryggisventill ef til dæmis fyrirtæki hætta að fullnægja starfsleyfisskilyrðum eða beita þarf viðurlögum þegar lög hafa verið brotin. Hlutverk Fjármálaeftirlitsins er þó einnig leiðbeinandi, en það gefur út fjölmargar leiðbeiningar um starfshætti á markaði í formi reglna, leiðbeinandi tilmæla og túlkana.“