Í áramótablaði Viðskiptablaðsins er spjallað við nokkra forystumenn í mismunandi greinum atvinnulífsins þar sem þeir eru spurðir hvernig þeim fannst árið sem er að líða og hvaða væntingar þeir bera til ársins 2015. Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, segir ánægjulegt að sjá þann stöðugleika sem náðist í efnahagslífinu á árinu.

Hvernig var árið 2014 heilt yfir?

Árið var heilt yfir ágætt og staðan í efnahagslífinu betri nú en í upphafi árs. Rekstur VÍS gekk vel og við höfum náð góðum árangri í stefnumarkandi verkefnum sem miða að því að lækka rekstrarkostnað og auka ánægju viðskiptavina.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?

Það er ánægjulegt að sjá þann stöðugleika sem náðst hefur í efnahagslífinu. Hann birtist meðal annars í mjög lágri verðbólgu, nokkuð stöðugu gengi og auknum kaupmætti launa. Þá er ánægjulegt að Seðlabankinn lækkaði vexti undir lok árs. Enn fremur virðist rekstur fyrirtækja almennt hafa gengið vel.

Hverjar eru væntingar þínar á nýju ári?

Ég er bjartsýn á næsta ár og tel að við höfum á góðum grunni að byggja. Land er tekið að rísa, fjárfestingar fara vaxandi. Vonandi tekst að skapa áframhaldandi stöðugleika í samfélaginu.

Hver eru mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar á næsta ári?

Langmikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar er og verður áfram að afnema fjármagnshöftin. Þau skaða samkeppnishæfni Íslands til lengri tíma og koma í veg fyrir eðlilega uppbyggingu atvinnulífsins. Einnig tel ég mikilvægt að áfram verði unnið að aukinni skilvirkni í ríkisrekstri, betri tökum verði náð á ríkisfjármálum og skuldir ríkissjóðs lækkaðar.