Uppgjör Atorku Group fyrir þriðja ársfjórðung var yfir væntingum greiningardeildar Glitnis en undir væntingum greiningardeildar Landsbankans. Greiningardeild Kaupþings spáir ekki fyrir um félagið.

Móðurfélag Atorku Group hagnaðist um 734 milljónir á fjórðungnum, samanborið við 555 milljón króna hagnað á sama tíma fyrir ári. Greiningardeild Glitnis vænti 626 milljón króna hagnaði á tímabilinu en greiningardeild Landsbankans spáði 1,5 milljarði króna í hagnað.

Samkvæmt samstæðu reikningi, þar sem beitt er hlutdeildaraðferð, hagnaðist Atorka Group um 2,7 milljarða króna eftir skatta á fjórðungnum, samanborið við 32 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

"Sem fyrr vega uppfærslur óskráðra eigna þyngst," segir greiningardeild Landsbankans um uppgjör Atorku Group en þessar uppfærslur voru í takt við spá greiningardeildarinnar og námu þær um 2,7 milljörðum króna.

Atorka Group endurfjármagnaði hluta af skammtímalántökum sínum, 5,5 milljarða króna, með nýjum lántökum til tveggja ára eða lengur á fjórðungnum.

Á fjórðungnum seldi Atorka Jarðboranir til Geysir Green Energy. Heildarvirði (Enterprise Value) sölunnar var 17,7 milljarðar króna. Innleystur hagnaður frá upphafi fjárfestingarinnar er um 11 milljarðar króna þar af á fjórða milljarð á öðrum ársfjórðungi í móðurfélagsreikningi.

Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er 37%, samkvæmt móðurfélagsreikningi.

Eigið fé móðurfélagsins var 22,9 milljarðar króna í lok september en samkvæmt samstæðureikningi var það um 13 milljörðum króna í lok september, samanborið við 12,3 milljarða í ársbyrjun.