Eimskip hagnaðist um 1,5 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi, sem var bati um 2,3 milljónir evra miðað við sama tímabil í fyrra. Rekstrartekjur námu 112,7 milljónum króna og jukust um 8,1% milli ára. Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á N-Atlantshafi dróst saman um 3,2%, en flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun jókst um 4,1% milli ára. EBITDA nam 5,8 milljónum evra samanborið við 6,0 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, sagði við kynningu uppgjörsins að hagnaður á fyrsta ársfjórðungi hefði verið umfram væntingar, einkum vegna jákvæðs gengismunar. Hann sagði hins vegar að slæm veðurskilyrði hefðu haft áhrif á reksturinn. Skip félagsins hefðu átt erfitt með að halda áætlun og kostnaður aukist vegna yfirvinnu og aukinnar olíunotkunar.

Veðurfar raskaði áætlun

„Almennt voru ekki miklar væntingar gerðar til afkomu Eimskips á fyrsta ársfjórðungi. Veðurfar hafði raskað flutningaáætlun og valdið töfum bæði við Ísland og Noreg sem lækkaði tekjur í leiðakerfinu og jók rekstrarkostnað. Afkoman var því miður enn lakari en við, og líklega flestir markaðsaðilar, áttum von á. Þannig jukust tekjur frá sama tíma í fyrra um aðeins 2,4% og flutningsmagn dróst saman,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, um uppgjörið.

Stefán Broddi segir að svo virðist sem samdrátturinn skýrist af veðurskilyrðum í Noregi. „Noregur skilar jafnan í kringum 10% af veltu Eimskips og vonbrigði að aðrir markaðir hafi ekki verið sterkari,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .