Landsvirkjun hyggst frá og með apríl nk., á aðalfundi fyrirtækisins, gefa upp ítarlegri upplýsingar um orkuverð til viðskiptavina sinna. Þetta kom fram í máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á fundi með viðskiptanefnd fyrr í vikunni. Landsvirkjun hefur til þessa ekki gefið upp söluverð á raforku til stærstu viðskiptavina sinna, sem eru álframleiðendur í landinu.

Viðskiptablaðið greindi frá því undir lok árs í fyrra að álframleiðendur hefðu greitt Landsvirkjun um 30 dollara á megavattstund af rafmagni í fyrra. Þetta mátti sjá út úr gögnum Landsvirkjunar og Orkustofnunar. Yfirmaður tæknimála hjá Verne Global lét hafa eftir sér í viðtali á dögunum að fyrirtækið myndi greiða um 40 dollara á hverja megavattstund af rafmagni.