Skuldir Lehman nema meira en 600 milljörðum dala og dreifast þær um allan heim.

Ljóst er að nú tekur við flókið ferli þar sem farið verður yfir kröfur, auk þess sem vinda þarf ofan af flóknum afleiðuviðskiptum bankans, sem og afleiðum varðandi stöðu hans.

The Daily Telegraph hefur eftir sérfræðingum að útistandandi afleiðusamningar Lehman nemi um 729 milljörðum Bandaríkjadala og vissulega vakna áleitnar spurningar um stöðu þeirra sem hafa gert þessa samninga við bankann.

Segja má að tíðindin af greiðslustöðvun Lehman og sölu Merrill séu samofin. Viðræður stóðu yfir um helgina um möguleg kaup breska bankans Barclays og Bank of America á Lehman en þær runnu út í sandinn þegar ljóst varð að bandarísk yfirvöld myndu ekki liðka fyrir kaupunum, eins og þau gerðu þegar Bear Stearns riðaði til falls í mars og var seldur til JP Morgan.

Segja má að með þessu hafi seðlabankinn og stjórnvöld dregið línu í sandinn varðandi frekari björgunaraðgerðir á aðþrengdum fjármálafyrirtækjum.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .