Yfirstandandi vinnuvika verður mörgum erfið enda síðasta vinnuvika mánaðarins.

Nú þegar hafa fyrirtæki tilkynnt um fjölmennar uppsagnir og búist er við að þeim fjölgi fyrir helgi.

Það er þungt hljóð í forsvarsmönnum flestra samtaka og félaga á vinnumarkaði sem Viðskiptablaðið ræddi við í dag.

Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, gerir ráð fyrir að fjölda manns verði sagt upp í bygginga- og mannvirkjagerð um næstu mánaðamót.

„Hver fjöldinn verður er ekki gott að segja, m.a vegna þess að þetta eru að hluta til erlendir starfsmenn sem maður hefur ekki eins gott yfirlit yfir. Ég spái því að fjöldinn verði á bilinu 700 til 1.000,” segir Þorbjörn.

Innan Samtaka iðnaðarins er ekki gott hljóð í mönnum. Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri samtakanna, óttast talsverðar uppsagnir um mánaðamótin.

„Það liggur þegar fyrir að mörg fyrirtæki í okkar röðum, enn sem komið er helst í mannvirkjagreinum, hafa sagt upp fjölda fólks,” segir Jón Steindór.

Hann segir samdrátt einnig greinilegan í öðrum greinum iðnaðarins og því líklegt að þar verði líka sagt upp einhverjum starfsmönnum.

„Það er ómögulegt að segja til um hvenær aðstæður lagast. Það fer allt eftir því hve hratt tekst að koma á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum og bankastarfsemi í landinu.”

Aðalsteinn Snorrason, formaður Félags sjálfstætt starfandi arkitekta, segir að samkvæmt nýjustu upplýsingum félagsins muni rúmlega 300 arkitektar, og aðrir þeir sem sinna arkitektastarfsemi, missa vinnuna um mánaðamótin.

Þær uppsagnir eru reyndar nú þegar byrjaðar, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, metur aðstæður í verslun hérlendis þannig að þar sem nú fari í hönd mesti annatíminn í verslun verði ekki um verulegar uppsagnir að ræða um næstu mánaðamót.

„Ég get hins vegar sagt að ég óttast, miðað við stöðuna eins og hún er nú, að ástandið versni eftir áramót, einkum eftir að janúarútsölum lýkur,“ segir Andrés.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  uppsagnir í íslensku atvinnulífi í Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld, lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .